Grunnur að garðyrkjustöðinni Espiflöt var lagður þann 1.maí 1948, þegar hjónin Eiríkur og Hulda Sæland fluttust búferlum úr Hafnarfirði og settust að í Reykholti með það fyrir augum að stofna þar garðyrkjubýli. Eiríkur hafði útskrifast úr öðrum árgangi Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi vorið 1943.

Þau hófu vinnu á Garðyrkjustöðinni Stóra-Fljóti þar sem þau unnu samhliða því að kaupa sér land úr jörðinni og hefja þar byggingu íbúðarhúss og gróðurhúsa. Einnig þurfti að kaupa sér aðgang að Reykholtshver til að hita upp gróðurhúsin. Jón. H Björnsson landslagsarkitekt, seinna kenndur við Alaska, teiknaði umhverfið og lagði upp frumskipulag garðyrkjustöðvarinnar.

Nafn garðyrkjubýlisins var raunar Sjónarhóll allt fram til 1958, þegar því var breytt í Espiflöt.

Fram undir 1965 var eingöngu ræktað grænmeti á Espiflöt en á árunum 1965-1977 var blönduð ræktun blóma og grænmetis. Á þessum árum var garðyrkjustöðin um 1300m að flatarmáli. Árið 1977 hófst nýr kafli í rekstrinum þegar synir þeirra Stígur og Sveinn ásamt eiginkonum þeirra, Aðalbjörgu og Áslaugu, stofnuðu með þeim félagsbúið Espiflöt sf.

Ákveðið var að sérhæfa sig í ræktun afskorinna blóma þar sem blandaða ræktunin gafst ekki vel m.a. með tilliti til notkunar varnarefna. Garðyrkjustöðin var stækkuð og endurnýjuð á næstu árum samhliða því að leigja garðyrkjustöðvarnar Friðheima og seinna Birkilund næstu 6 árin.

Árið 1987 urðu enn þáttaskil í starfseminni þegar Stígur og Aðalbjörg stofnuðu sína eigin garðyrkjustöð á lóð Espiflatar og hurfu úr rekstrinum. 

Þann 1.maí 1998 eða nákvæmlega eftir 50 ára búsetu hættu Eiríkur og Hulda þáttöku í rekstrinum og fluttu á Selfoss eftir langt og farsælt starf. Eiríkur lést í nóvember 2002.

Frá 1998  ráku hjónin Sveinn A. Sæland og Áslaug Sveinbjarnardóttir Espiflöt ehf. Þau eru bæði garðyrkjufræðingar frá Garðyrkjuskóla ríkisins, útskrifuð 1974 og 1976. Sveinn að auki með nám í rekstrarfræðum frá garðyrkjuskólanum Söhus í Danmörku.

Árið 2013 urðu enn kynslóðaskipti á Espiflöt þegar að sonur hjónanna, Axel Sæland íþróttafræðingur og nemi í garðyrkjuskólanum og eiginkona hans Heiða Pálrún Leifsdóttir hjúkrunarfræðingur komu inn í reksturinn, eftir að hafa verið viðloðandi hann um nokkurra ára skeið.